Ekki versla á Íslandi.

Finnst þetta einfaldlega mjög góð grein og sönn, sem á erindi til allra.

Vona að svona copy/paste aðferð fyrirgefist!

mynd

Íris Erlingsdóttir skrifar skrifar:

Þetta segir Íris Erlingsdóttir fyrrum ritstjóri Gestgjafans í grein sem hún hefur sent Vísi. Þar talar hún um verslunaræði íslendinga í útlöndum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem eitt stærsta dagblað Minneapolis var með forsíðufrétt um málið.


Verslunarorgíur Íslendinga erlendis voru á forsíðu eins stærsta dagblaðs Bandaríkjanna, The Minneapolis Star Tribune, núna rétt fyrir jólin. Greinin fjallaði um vinsælar verslunarferðir útlendinga, en sérstaklega Íslendinga, vegna lágs gengis dollars, til Ameríku og forsíðumynd blaðsins sýndi örþreyttan Íslending þar sem hann beið úti á Humphrey flugvelli eftir fluginu heim, liggjandi ofan á jólagóssinu.

Þegar ég las þetta yfir kaffibollanum mínum þennan desembermorgun í Minnesota þar sem ég hef búið undanfarin sjö ár, hugsaði ég með mér að nú hefðum við alveg gengið af göflunum í neyslunni. Neyslugleði Íslendinga var orðin að forsíðufrétt í heimspressunni. Frá því að heyra algeng ummæli útlendinga um ættjörðina ástkæru ,,Ísland... já, ó þú ert íslensk, ég var einmitt að horfa á heimildamynd á PBS um alkóhólismann á Íslandi, víst verst í heiminum...." nú yrði það „já, Íslendingar, ég las að þeir væru heimsins versta dæmi um neysluhyggju..."

En það var ekki fyrr en ég kom heim yfir jóla-og nýárshátíðina að ég skildi hvers vegna Íslendingar halda áfram að fara til útlanda til að versla þó landið sé orðið fullt af "big-box" búðum eins og hér í Ameríku og allt sé til af öllu. Í íslenskri verslunarmenningu er það alltaf það sama sem stendur upp úr hvað neytendur varðar: óheyrileg dýrtíð og afburða léleg þjónusta.

Verðlagning, sérstaklega á fatnaði, er yfirgengileg - klúr er helst orðið sem manni dettur í hug til að lýsa okrinu. En það er ekki bara það að krómslegnar okurbúllur mannaðar spjátrungslegu afgreiðslufólki séu fullar af nankinbrókum sem kosta hálf mánaðarlaun meðallaunþega - íslenskir verslunareigendur eru líka enn fastir í því sem ég kalla KGB stílinn hvað snertir þjónustu við neytendur, eins og ég komst að af eigin raun yfir hátíðarnar heima á Íslandi.


Ég hlakkaði til að borða jólamatinn, sem var hamborgarhryggur, og í Hagkaup keypti ég tvo hryggi, einn til að elda á aðfangadagskvöld og annan til að taka með mér út. Hamborgarhryggirnir eins og maður hefur fengið þá heima í gegnum tíðina eru nefnilega ekki auðfundnir í USA; maður verður að leita uppi bændur og gamalreynda kjötvinnslumenn í smábæjum með skringilegum nöfnum til að finna reykt svínakjöt sem lítur út eins og alvöru kjöt með kjötþráðum en ekki eins og pressað frauðplast.

En þegar hryggurinn hafði verið eldaður kom í ljós að kjötvinnslan í Hagkaup virtist hafa hrifist af þessari amerísku aðferð við meðferð svínakjöts svo eftir jólin hélt ég niður í Hagkaup í Kringlunni til að skila hryggnum. Ég dró kjötið ásamt kvittun upp úr rauðum Hagkaupspokanum og sagðist vilja skila því.

Afgreiðsludaman leit á mig og hallaði undir flatt. „Veistu ég get ekki tekið við þessu, það er ekki hægt að skila mat... Það má ekki endurgreiða matvöru." Ég hafði vart upphafið ræðu mína um hvurslags eiginlega léleg þjónusta þetta væri, um Íslendinga sem búa erlendis og hrörnun íslenskrar svínakjötsvinnslu þegar hún sá aumur á mér, tók up penna og blað og byrjaði að fylla út innleggsnótu.

„Við megum nú ekki gera þetta, en ... þetta er allt í lagi, ég geri bara undanþágu fyrir þig." Ég hafði reyndar ætlað að fá peningana mína til baka því ég hugðist fara niður í Nóatún til að kaupa annan hrygg, en sagði ekkert þar sem ég átti eftir að versla nokkrar íslenskar bækur og gat notað nótuna til þess.

Laus við svínið hélt ég beinleiðis yfir í 66°N, þar sem ég hafði fjárfest í jólagjöf sem átti að fara aftur með fjölskyldunni hingað út. Gjöfin, jakkapeysa, passaði ekki svo það þurfti að skipta henni. En rétta stærðin var ekki til, hvorki þar né í öðrum verslunum 66°N. Okei.... jæja, ég ætla þá bara að fá þetta endurgreitt, sagði ég við afgreiðslustúlkuna, enda hafði ég borgað með debetkorti fyrir vöruna. Hún leit á mig eins og ég hefði sagt eitthvað dónalegt eða lagt til að hún tæmdi peningakassann ofan í töskuna mína.

„Endurgreitt?! Nei. Það er ekki hægt." Hvað meinarðu það er ekki hægt, spurði ég. „Það er ekki gert hérna. Það bara tíðkast ekki í búðum á Íslandi að maður fá endurgreitt. Þú getur fengið innleggsnótu." Bíddu nú við, hvar er ég stödd, hugsaði ég, er þetta Rassgatistan eða Podunkistan? Hér er ég með vöru sem ég staðgreiddi, ónotaða, enn með miðunum á, í gjafaumbúðunum frá versluninni sjálfri, með kvittun, það er ekkert til í búðinni sem ég get notað, en ég get ekki fengið hana endurgreidda? Ég bý erlendis, svo hvað á ég að gera við innleggsnótu, ég týni henni sennilega eða gleymi henni, ég veit ekki hvenær ég kem aftur hingað.

Þá datt mér snjallræði í hug. Það er 66°N sjoppa í flugstöðinni í Keflavík, kannski get ég notað hana þar... „Þú getur prófað það," sagði afgreiðslustúlkan, greinilega fegin að losna við þessa freku kellingu út úr búðinni.

Lítið úrval var í fríhafnarbúðinni, en ég fann eina peysu sem passaði hvað varðaði stærð og verð. Ég lagði peysuna á afgreiðsluborðið ásamt innleggsnótunni. „Nei," sagði afgreiðsludaman, eftir að hún hafði litið á innleggsnótuna merkta lógói 66°N í stórum stöfum. „Við megum ekki taka við þessu," sagði hún eins og ég hefði lagt notaðan klósettpappír á borðið.

Nú var mér alveg nóg boðið. Ég vissi að þessi markvissa „léleg þjónusta er okkar stolt" stefna verslunareigendanna var ekki vesalings konunni að kenna, en að geta ekki notað innleggsnótu 66°N í þeirra eigin verslun... Það sauð í mér pirringurinn. Klukkustundar biðin eftir að tékka inn í flugið, og margfaldar vegabréfs- og skósólaskoðanir yfirvalda í flugstöðinni höfðu heldur ekki bætt skap mitt. Ég bað um að fá að tala við verslunarstjóra, en það var enginn í búðinni „yfir." „Þú getur talað við Halldór," sagði konan. „Hann er yfir þessu öllu, hann er í Reykjavík..."

Svo ég hélt aftur til Ameríku, peysulaus og orðlaus yfir dónaskap íslenskra kaupmanna. Ég reyni að liggja á innleggsnótunni þangað til ég kem heim næst, eða e.t.v. gef ég hana einhverjum í afmælisgjöf.

Sennilega get ég fengið alveg eins jakka í Columbia Sportswear útivistarfatabúðinni hérna rétt hjá fyrir þrjú eða fjögur þúsund kall eða minna á útsölu í staðinn fyrir tíu þúsund krónurnar sem ég greiddi fyrir hann á Íslandi. Enda var það ekki jakkinn sjálfur sem var það mikilvægasta - ættjarðarástin birtist í ýmsum myndum og ein þeirra er að vera stundum í sér „íslenskum" fatnaði, íslenskri lopapeysu, nú eða flík sem á stendur 66°N og er búinn til í Sjóklæðagerðinni. Dálítið kúl. (En nú er ég reyndar ekki alveg viss um hvað er séríslenskt við 66°N fatnaðinn. Á fallegri 66°N húfu sem dóttir mín fékk í jólagjöf stendur: Made in Latvia.)

Ég hef ekki enn hringt í Halldór (eða Hagkaup) en það væri fróðlegt að vita, frá honum eða einhverjum forsvarsaðilum íslenskra verslunareigenda, hvers vegna þeim finnst í lagi að bjóða íslenskum neytendum upp á svona þjónustuleysi. En þangað til mun ég í framtíðar ferðalögum aftur heim reyna að gera eins og heimamenn á Fróni og forðast íslenskar verslanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Já.. þegar hún segir það... Maður er orðin svo samdauna þessari vitleysu að manni finnst bara sjálfsagt að fá ekki endurgreitt. Ég man að ég gapti í forundran þegar ég gerði mér grein fyrir því að hægt væri að skila vöru og fá hana endurgreidda í Zöru.

Jóna Á. Gísladóttir, 13.1.2008 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Fjarkaland

Fjarki
Fjarki
Áhugamaður um Atvinnumennsku

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Porterhouse

Finnur Bjarki. flytjandi Eyþór Ingi - Wake Up Now

Nýjustu myndir

  • ...banner4
  • ...banner7
  • ...eportbanner

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband