Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Fjármál almennings.

Ég hef eins og svo margir áhuga á að bæta nýtingu þeirrar innkomu sem atvinnan gefur hverju sinni.

Eins hef ég verið þeirrar skoðunar að kennsla í meðferð peninga/fjármagns eigi að byrja í barnaskóla og eigi ekki að vera eingöngu í höndum Banka eða á efri stigum náms.

Á mínu æskuheimili var ekki mikið rætt um peninga og fjármál þó að sparibaukurinn hafi verið til staðar og við systkinin hvött til að nota hann, þá náði það ekki mikið lengra.

Nú í síðustu viku fór ég með son minn sem er að verða sautján ára og stefnir á bílakaup til Ráðgjafa í bankanum okkar og þar fræddumst við feðgar saman um ýmislegt tengt sparnaði og fjármálum.

Og ekki er vanþörf á smá fræðslu eins og umræðan er í dag.  m5.is

Þessi ágæti ráðgjafi gaf okkur upp þessa heimasíðu með ýmsum upplýsingum og fróðleik um fjármál, sem á að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á! EKKI BARA FYRIR SÉRFRÆÐINGA!

Heldur mig og þig! www.m5.is

 


Er það ekki merkilegt!

Að sjá menn tala um kommúnisma þegar kemur að takmörkunum á spillingu og bulli!

Einn bloggarinn talar um þak á Íþróttamenn og aðrar hátekju stjörnur í samanburði við Ofurlauna-forstjórana! Fólk sem oftast tapar tekjum um leið og það fær hrukkur, meiðsli eða missir vinsældir eins og iðulega gerist, en hann hefur kannski eitthvað til síns máls.

Ofurlaunaforstjórar (þeir kláru) virðast ekki lækka í bónusum þó að fyrirtæki standist ekki áætlanir eða jafnvel stórtapi!412122A

Ég er svo einfaldur að ég geri bara ráð fyrir því að þessu vilji ESB sporna gegn!

Er þeir bestu svo fáir að þeir geti farið fram á kvað sem er í samningum eða er eitthvað þögult samkomulag um að skaffa sér svona ríflega, sama á hverju gengur?

Er enginn tilbúinn að sinna þessum störfum með sama árangri fyrir minni laun?

Sjálfur hef ég ekki á móti því að fólk fái góð laun fyrir góðan árangur í starfi, en að fáir einstaklingar í stórfyrirtækjum með hundruð eða þúsundir undirmanna, sem allir eru jafn skyldugir að skila sínu verki, fái jafn mikið eða meiri laun en allir undirmenn til samans, hljómar svolítið öfgakennt í mínum eyrum! 

Það er kannski við hæfi að minna á brot úr textanum Vegurinn til glötunar með Poetrix.

Lík kistur eru ekki með vasa!

Eða hvað, það skyldi þó ekki vera að einhverjir þessara snillinga hafi fundið leið:)) 

 

 

 


mbl.is ESB ræðst til atlögu við ofurlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síminn.....sparar tímann...!

Svona segir í gömlu lagi sem ég hef haldið uppá.

Nú hef ég verið að vinna í úrlausn til þess að faðir minn geti notað síma með raddstýringu eingöngu!

Hann er í þannig stöðu að hendurnar gagnast honum lítið, í bili amk..

Honum var færður GSM sími Nokia 6021 með bluetooth (blátönn:) sem átti að leysa þessi mál og gefa honum aukna möguleika á að halda sambandi við vini og fjölskyldu.

Hann á því að geta gefið símanum raddbendingar og hringt í þann sem hann langar til. 

Þetta hefur gengið hálf illa og Tæknideild símans í 800-7000 er ekki hæf til að hjálpa okkur með þetta og ég hef verið sendur í verslun þeirra í Ármúlanum eftir þau símtöl.

Ég bý um 100 km frá Reykjavík og hef gert mér tvær ferðir sérstaklega í þessum erindum. Í fyrsta símtali fékk ég þau svör að í verslun Símans væri fjöldinn allur af símum sem gerðu nákvæmlega þetta, stýrast með röddinni.

Ég spurði til að vera öruggur!! Alveg án þess að þrýsta á hnappa?

Já var svarið!!

Það er svo  mikið úrval að þú verður bara að sjá það sjálfur! 

Í fyrra skiptið sem ég fór var mér kennt að taka upp röddina og festa hana við númerið, það var að líða að lokun svo að stúlkan, þó kurteis væri var greinilega að flýta sér.

Síðan hóf ég tenór æfingar á símanum til að láta hann svara mér því að þetta var ekki svo flókið eftir allt saman!

En viti menn síminn var algjörlega heyrnarlaus og sýndi enginn viðbrögð.

Ég fór því á netið inn á Nokia.com og náði mér í upplýsingar um tegundina.

Það vantaði ekkert um hvað þessi síma er magnaður og möguleikarnir endalausir. Það vantaði bara eitt! Leiðbeiningar um hvernig ætti að láta alla þessa dýrð virka.

Þá var komið að síðari ferðinni í Ármúlann. Stúlkan fór með símann á bak við í "Sérfræðingaherbergið" og þeir fundu út að það væri takki eins og á Labb-Rabb talstöðvum sem þyrfti að þrýsta á og SVO AÐ TALA VIÐ SÍMANN SJÁLFAN !

Sem sagt niðurstaðan lá fyrir, Þeir eiga ekki til síma sem svarar með raddstýringu einni saman, með þau svör fór ég út.

Ég á erfitt með að trúa þessu miðað við tæknina í dag, en ég er búinn að gefast upp á Símanum ehf.

Það er búið ljúga að manni að þeir eigi hlutina til og svo er enginn áhugi á að leysa málið!

Það er ekki nóg að setja sjálfan Jesú í auglýsingaherferð, kraftaverkinn fylgja greinilega ekki með!

 
Þegar ég hringdi á Hátækni til að tala við sölumann þar sem ég kannast við, þá hringdi hann aldrei til baka þrátt fyrir þrenn skilaboð til hans, svo að ekki var þjónustan betri þar þrátt fyrir kunningsskap.

Það má þó hrósa þeim fyrir að mismuna ekki fólki vegna tengsla! 

Ef einhver veit betur og getur komið mér til aðstoðar þá er það vel þegið! 


Þakkir

Mig langar að koma á framfæri þakklæti til þeirra sem tóku þátt í Íslenskum dögum á Amie Street.com

Þetta var athyglisvert og gaman að taka þátt í.

Það voru ólíkir aðilar úr  Íslensku tónlistarlífi sem tóku þátt eins og til dæmis: Hraun, Jóhann G, Bloodgroup, Siggi Pálma, Porterhouse og fleiri.

Á Amie Street er talsvert önnur nálgun í sölu tónlistar á netinu heldur en ég hef kynnst.

Í fyrstu er tónlistinn ókeypis en hækkar í verði eftir vinsældum og hlustandinn hefur þá hvatningu að sé hann með þeim fyrstu til að mæla með einhverju lagi þá getur inneign hans til kaupa á tónlist vaxið.

Þetta er hvetjandi fyrir áhugasama um að finna nýja tónlist sem vekur áhuga þeirra, þetta vekur upp umtal og allskyns vangaveltur á vefsvæðinu.

Hlustandinn getur verið mjög virkur og úrvalið er frábært á öllum stigum!

Reyndar tók ég eftir því að stóru nöfnin eru stundum seld beint á fullu verði en þetta hentar vel Indie/Sjálfstæðu tónlistarfólki.

Það eru ótrúlega margir sem lifa af án þess að vera hjá stóru útgáfufyrirtæki. 

Margt smátt....... 


Íslensk Tónlist í útrás

amie small (amiestreet.com) efnir til íslenskra daga 18. - 24. febrúar nk. í samstarfi við IMX (Iceland Music Export). Markmiðið er að kynna og selja íslenska tónlist á netinu. Amie Street er ört vaxandi tónlistarmiðill og netsamfélag þar sem hljómsveitir geta kynnt og selt tónlist sína.IMX logosmall

 

Amie Street

Amie Street var sett á laggirnar fyrir einu og hálfu ári, en hugmyndin kviknaði á bar hjá nokkrum háskólanemendum þar sem þeir veltu fyrir sér hvað þyrfti til svo þeir myndu reiðubúnir að kaupa tónlist í gegnum netið. Vefsíðan hefur vakið mikla athygli og netsamfélagið í kringum hana telur nú um milljón manns. Amie Street hafa innleitt nýja nálgun gagnvart dreifingu á tónlist.

 

Það sem hefur vakið mesta athygli á Amie Street er óvenjuleg verðmyndun á tónlistinni. Verðmyndunin fer eftir vinsældum tónlistarinnar. Öll tónlist byrjar ókeypis og verð hvers lags hækkar eftir því sem oftar er náð í það og nær hámarki í 0,98$. Önnur sérstaða Amie Street er að allar hljómsveitir geta opnað sitt eigið búðarhorn inn á síðunni. Vefsíðan er jafnframt landamæralaus sem þýðir að fólk hvaðan af úr heiminum getur keypt tónlist af henni. Nú nýlega var útibú Amie Street sett á laggirnar í Japan líka en fyrirtækinu hefur hingað til verið stýrt frá USA.

Porterhouse tekur þátt í Íslenskum dögum á Amie Street.

porterhouseWh
 

Ég vill benda þeim á sem vilja prufa!
Að setja Iceland sem "promotion code"......og fá þá inneign til kaupa á Tónlist

en skráning kostar ekki neitt!


Stjórnvöld hyggjast styrkja Bankana

 

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir ekki koma til greina að missa bankana úr landi. Hann segir ríkisstjórnina vinna hörðum höndum að því að styrkja starfsumhverfi bankanna. Viðskiptaráðherra segir það jákvætt að íslenska ríkið haldi hæstu einkunn hjá matsfyrirtækinu Moody's en þar sé einnig bent á að það kunni að breytast.

Ráðherra segir að nú fari hópur á sínum vegum yfir það hvort fyrirtæki geti gert upp og skráð hlutabréf sín í erlendri mynt. Þá verði skoðað hvað sé hægt að gera til að bregðast við því að íslenska myntsvæðið sé að verða of lítið, haldi bankarnir áfram að auka umsvif sín.

 

Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, sagði í Útvarpsfréttum í gær að niðurstaða skýrslu matsfyrirtækisins Moody's væri sú að það myndi draga úr skilyrtum ábyrgðum ríkisins ef bankarnir drægju saman seglin í útlöndum eða flyttu höfuðstöðvar sína úr landi.

Ólafur segir að af þessu megi gagnálykta að vilji ríkisstjórnin ekki missa bankana úr landi verði hún að grípa til aðgerða til að styrkja starfsumhverfi bankanna; einkum á sviði gjaldeyrismála.

Allir bankarnir á athugunarlista

Allir þrír stóru íslensku bankarnir eru nú á athugunarlista matsfyrirtækisins Moody´s vegna hugsanlegrar lækkunar á einkunn þeirra. Bankarnir, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, hafa allir langtímaeinkunnina Aa3 fyrir lánshæfi og einkunnina C fyrir fjárhagslegan styrkleika.

Kaupþing hefur verið á athugunarlista frá því bankinn tilkynnti um yfirtöku á NIBC bankanum í júlí og eftir að tilkynnt var í morgun að þau kaup væru úr sögunni tilkynnti Moody´s að Kaupþing yrði áfram á listanum. Slök afkoma bankanna í lok síðasta árs og horfur um erfiðleika á mörkuðum á næstunni eru helstu forsendur þessarar ákvörðunar Moody´s.

 Fjögur atriði eru talin í tilkynningu Moody´s, sem skoðuð verða hjá öllum bönkunum. Í fyrsta lagi öryggi tekna þeirra í ljósi erfiðra aðstæðna á mörkuðum, þá áhrif hærra skuldatryggingarálags sem er íþyngjandi fyrir bankana á fjármögnun þeirra, í þriðja lagi þróun gæða eigna bankanna með tilliti til hins ótrygga ástands sem nú ríki á íslenska hlutabréfamarkaðnum og loks þróun lausafjárstöðu bankanna með tilliti til markaðsaðstæðna.

Um leið og fyrrgreind atriði eru til athugunar var staðfest af Moody´s að skammtímaeinkunn þeirra væri staðfest. Um alla bankana þrjá gerir Moody´s ennfremur þá athugasemd að viðskiptamódel þeirra hvíli að stórum hluta á fjárfestingabankastarfsemi og fjármálamörkuðum sem verði hvort tveggja krefjandi starfsemi næsta árið.

Um Glitni er sú athugasemd að enn standi yfir breytingar á eignarhaldi bankans og samruna við fyrirtæki á norræna markaðnum sé ekki lokið með tilheyrandi stefnubreytingum við samrunann.

Landsbankinn fær þá athugasemd að óvissa tengist nýjum netbankainnlánum bankans erlendis en þau jukust gríðarlega í fyrra og standi undir fimmtungi af fjármögnun bankans. Moody´s lýsir áhyggjum af því hve stöðug slík fjármögnun sé. Moody´s segir í tilkynningu sinni að niðurstöður athugunar á bönkunum eigi að liggja fyrir innan mánaðar.

Af fréttavef RUV. 

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item188770/  


Hrægammar! Vulture funds.

Ég rakst á grein um fjármálageirann á heimasíðunni http://www.makepovertyhistory.org

 Þetta er nú sennilega ein dekksta hliðin á fjárfestum, ég vona það í það minnsta.

En það á svo sem ekkert að koma manni á óvart lengur! 

Vulture funds (Hrægamma-sjóðir) eru einkafyrirtæki sem kaupa upp skuldir fátækra þjóða og fara síðan í mál og innheimta síðan með fullri hörku til að hámarka gróðann!

Eitt slíkt fyrirtæki sem heitir Donegal International fór í mál við Zambíu.

Skuld sem þeir keyptu fyrir $3.3 milljónir var upphaflega $15.0 milljónir.

Donegal International fór fram á $55 milljónir frá Zambíu fyrir Dómstól í London.

Sú kröfu upphæð var tilkominn með vöxtum og kostnaði. Zambía svaraði fyrir sig í réttinum og lækkaði dómarinn upphæðina á endanum í $15.5 milljónir.

Zambía er land sem þarf á öllum sínum fjármunum að halda og þessir peningar hefðu þurft að fara í kennara, lækna og vatnsbirgðir.

Nánari upplýsingar má finna hér: http://www.jubileedebtcampaign.org.uk/?lid=2893  

 

 


Höfundaréttur.

Þetta er athygliverð frétt.

Höfundaréttur hefur verið í umræðunni, en ekki nægilega mikið.

Helst hefur sú umræða komið upp í tengslum við niðurhal af netinu og þá oft í tengslum við 365 ljósvakamiðla, sem eðlilega hafa ekki verið sáttir við ólöglegt niðurhal á myndefni sem þeir hafa dreifingarrétt á.

Það er þörf á að skerpa vitund almennings og jafnvel leikmanna á lögum um höfunda og dreifingarrétt og koma þessum upplýsingum í nútímalegt og aðgengilegt horf.

Ég hefði haldið að Stef með sínu öfluga starfi í þágu höfundaréttar gætti þess að höfundur hefði um það að segja í hvaða verkefni, og eins í hvaða tilgangi tónlistin er notuð, eins og í þessu tilviki!

En Stefi til varnar þá er gott aðgengi að upplýsingum hjá þeim og starfsfólk liðlegt.  

Ég hef verið að kynna mér höfundarétt undanfarið í tengslum við tónlist, en á greinilega langt í land með að skilja allan sannleikan í þeim efnum.

Ég hvet til umræðu! 

 


mbl.is „Búið að kasta stærri hagsmunum fyrir minni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki versla á Íslandi.

Finnst þetta einfaldlega mjög góð grein og sönn, sem á erindi til allra.

Vona að svona copy/paste aðferð fyrirgefist!

mynd

Íris Erlingsdóttir skrifar skrifar:

Þetta segir Íris Erlingsdóttir fyrrum ritstjóri Gestgjafans í grein sem hún hefur sent Vísi. Þar talar hún um verslunaræði íslendinga í útlöndum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem eitt stærsta dagblað Minneapolis var með forsíðufrétt um málið.


Verslunarorgíur Íslendinga erlendis voru á forsíðu eins stærsta dagblaðs Bandaríkjanna, The Minneapolis Star Tribune, núna rétt fyrir jólin. Greinin fjallaði um vinsælar verslunarferðir útlendinga, en sérstaklega Íslendinga, vegna lágs gengis dollars, til Ameríku og forsíðumynd blaðsins sýndi örþreyttan Íslending þar sem hann beið úti á Humphrey flugvelli eftir fluginu heim, liggjandi ofan á jólagóssinu.

Þegar ég las þetta yfir kaffibollanum mínum þennan desembermorgun í Minnesota þar sem ég hef búið undanfarin sjö ár, hugsaði ég með mér að nú hefðum við alveg gengið af göflunum í neyslunni. Neyslugleði Íslendinga var orðin að forsíðufrétt í heimspressunni. Frá því að heyra algeng ummæli útlendinga um ættjörðina ástkæru ,,Ísland... já, ó þú ert íslensk, ég var einmitt að horfa á heimildamynd á PBS um alkóhólismann á Íslandi, víst verst í heiminum...." nú yrði það „já, Íslendingar, ég las að þeir væru heimsins versta dæmi um neysluhyggju..."

En það var ekki fyrr en ég kom heim yfir jóla-og nýárshátíðina að ég skildi hvers vegna Íslendingar halda áfram að fara til útlanda til að versla þó landið sé orðið fullt af "big-box" búðum eins og hér í Ameríku og allt sé til af öllu. Í íslenskri verslunarmenningu er það alltaf það sama sem stendur upp úr hvað neytendur varðar: óheyrileg dýrtíð og afburða léleg þjónusta.

Verðlagning, sérstaklega á fatnaði, er yfirgengileg - klúr er helst orðið sem manni dettur í hug til að lýsa okrinu. En það er ekki bara það að krómslegnar okurbúllur mannaðar spjátrungslegu afgreiðslufólki séu fullar af nankinbrókum sem kosta hálf mánaðarlaun meðallaunþega - íslenskir verslunareigendur eru líka enn fastir í því sem ég kalla KGB stílinn hvað snertir þjónustu við neytendur, eins og ég komst að af eigin raun yfir hátíðarnar heima á Íslandi.


Ég hlakkaði til að borða jólamatinn, sem var hamborgarhryggur, og í Hagkaup keypti ég tvo hryggi, einn til að elda á aðfangadagskvöld og annan til að taka með mér út. Hamborgarhryggirnir eins og maður hefur fengið þá heima í gegnum tíðina eru nefnilega ekki auðfundnir í USA; maður verður að leita uppi bændur og gamalreynda kjötvinnslumenn í smábæjum með skringilegum nöfnum til að finna reykt svínakjöt sem lítur út eins og alvöru kjöt með kjötþráðum en ekki eins og pressað frauðplast.

En þegar hryggurinn hafði verið eldaður kom í ljós að kjötvinnslan í Hagkaup virtist hafa hrifist af þessari amerísku aðferð við meðferð svínakjöts svo eftir jólin hélt ég niður í Hagkaup í Kringlunni til að skila hryggnum. Ég dró kjötið ásamt kvittun upp úr rauðum Hagkaupspokanum og sagðist vilja skila því.

Afgreiðsludaman leit á mig og hallaði undir flatt. „Veistu ég get ekki tekið við þessu, það er ekki hægt að skila mat... Það má ekki endurgreiða matvöru." Ég hafði vart upphafið ræðu mína um hvurslags eiginlega léleg þjónusta þetta væri, um Íslendinga sem búa erlendis og hrörnun íslenskrar svínakjötsvinnslu þegar hún sá aumur á mér, tók up penna og blað og byrjaði að fylla út innleggsnótu.

„Við megum nú ekki gera þetta, en ... þetta er allt í lagi, ég geri bara undanþágu fyrir þig." Ég hafði reyndar ætlað að fá peningana mína til baka því ég hugðist fara niður í Nóatún til að kaupa annan hrygg, en sagði ekkert þar sem ég átti eftir að versla nokkrar íslenskar bækur og gat notað nótuna til þess.

Laus við svínið hélt ég beinleiðis yfir í 66°N, þar sem ég hafði fjárfest í jólagjöf sem átti að fara aftur með fjölskyldunni hingað út. Gjöfin, jakkapeysa, passaði ekki svo það þurfti að skipta henni. En rétta stærðin var ekki til, hvorki þar né í öðrum verslunum 66°N. Okei.... jæja, ég ætla þá bara að fá þetta endurgreitt, sagði ég við afgreiðslustúlkuna, enda hafði ég borgað með debetkorti fyrir vöruna. Hún leit á mig eins og ég hefði sagt eitthvað dónalegt eða lagt til að hún tæmdi peningakassann ofan í töskuna mína.

„Endurgreitt?! Nei. Það er ekki hægt." Hvað meinarðu það er ekki hægt, spurði ég. „Það er ekki gert hérna. Það bara tíðkast ekki í búðum á Íslandi að maður fá endurgreitt. Þú getur fengið innleggsnótu." Bíddu nú við, hvar er ég stödd, hugsaði ég, er þetta Rassgatistan eða Podunkistan? Hér er ég með vöru sem ég staðgreiddi, ónotaða, enn með miðunum á, í gjafaumbúðunum frá versluninni sjálfri, með kvittun, það er ekkert til í búðinni sem ég get notað, en ég get ekki fengið hana endurgreidda? Ég bý erlendis, svo hvað á ég að gera við innleggsnótu, ég týni henni sennilega eða gleymi henni, ég veit ekki hvenær ég kem aftur hingað.

Þá datt mér snjallræði í hug. Það er 66°N sjoppa í flugstöðinni í Keflavík, kannski get ég notað hana þar... „Þú getur prófað það," sagði afgreiðslustúlkan, greinilega fegin að losna við þessa freku kellingu út úr búðinni.

Lítið úrval var í fríhafnarbúðinni, en ég fann eina peysu sem passaði hvað varðaði stærð og verð. Ég lagði peysuna á afgreiðsluborðið ásamt innleggsnótunni. „Nei," sagði afgreiðsludaman, eftir að hún hafði litið á innleggsnótuna merkta lógói 66°N í stórum stöfum. „Við megum ekki taka við þessu," sagði hún eins og ég hefði lagt notaðan klósettpappír á borðið.

Nú var mér alveg nóg boðið. Ég vissi að þessi markvissa „léleg þjónusta er okkar stolt" stefna verslunareigendanna var ekki vesalings konunni að kenna, en að geta ekki notað innleggsnótu 66°N í þeirra eigin verslun... Það sauð í mér pirringurinn. Klukkustundar biðin eftir að tékka inn í flugið, og margfaldar vegabréfs- og skósólaskoðanir yfirvalda í flugstöðinni höfðu heldur ekki bætt skap mitt. Ég bað um að fá að tala við verslunarstjóra, en það var enginn í búðinni „yfir." „Þú getur talað við Halldór," sagði konan. „Hann er yfir þessu öllu, hann er í Reykjavík..."

Svo ég hélt aftur til Ameríku, peysulaus og orðlaus yfir dónaskap íslenskra kaupmanna. Ég reyni að liggja á innleggsnótunni þangað til ég kem heim næst, eða e.t.v. gef ég hana einhverjum í afmælisgjöf.

Sennilega get ég fengið alveg eins jakka í Columbia Sportswear útivistarfatabúðinni hérna rétt hjá fyrir þrjú eða fjögur þúsund kall eða minna á útsölu í staðinn fyrir tíu þúsund krónurnar sem ég greiddi fyrir hann á Íslandi. Enda var það ekki jakkinn sjálfur sem var það mikilvægasta - ættjarðarástin birtist í ýmsum myndum og ein þeirra er að vera stundum í sér „íslenskum" fatnaði, íslenskri lopapeysu, nú eða flík sem á stendur 66°N og er búinn til í Sjóklæðagerðinni. Dálítið kúl. (En nú er ég reyndar ekki alveg viss um hvað er séríslenskt við 66°N fatnaðinn. Á fallegri 66°N húfu sem dóttir mín fékk í jólagjöf stendur: Made in Latvia.)

Ég hef ekki enn hringt í Halldór (eða Hagkaup) en það væri fróðlegt að vita, frá honum eða einhverjum forsvarsaðilum íslenskra verslunareigenda, hvers vegna þeim finnst í lagi að bjóða íslenskum neytendum upp á svona þjónustuleysi. En þangað til mun ég í framtíðar ferðalögum aftur heim reyna að gera eins og heimamenn á Fróni og forðast íslenskar verslanir.


« Fyrri síða

Fjarkaland

Fjarki
Fjarki
Áhugamaður um Atvinnumennsku

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Porterhouse

Finnur Bjarki. flytjandi Eyþór Ingi - Wake Up Now

Nýjustu myndir

  • ...banner4
  • ...banner7
  • ...eportbanner

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband