Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eins og gerst hefði í gær!

Ekki kannski alveg. 

En ég var staddur um borð í gamla, gamla Herjólfi þegar gosið hófst.

Ég hef bara frásögn foreldra minna og ættingja til að vitna í, ég var á öðru ári og var að flytja til Vestmannaeyja með foreldrum mínum.

Foreldrar mínir hafa sagt okkur frá því þegar einn úr áhöfninni kom í klefann og vakti þau með þessum fréttum að Eldgos væri hafið í Heimaey.

Pabbi hafði þá á orði við mömmu að honum væri nú sama þó að menn væru að staupa sig, en þeir ættu nú að láta farþegana í friði.

Pabbi var með ferðaútvarp og þó að ekki hafi verið næturútvarp á þeim tíma þá datt honum í hug að kveikja á því. Ef eitthvað væri til í þessu þá væri örugglega neyðar útvarp í gangi, sem var og þetta því staðfest.

Það merkilega er þó að Herjólfur sem var bara lítill koppur í þá daga hélt áfram til Eyja og þegar þangað var komið þá var okkur víst sagt að bíða á Illugagötunni hjá ættingjum okkar.

Við yrðum látinn vita hvenær yrði farið til baka upp á land!

Síðan gerist það að Herjólfur sést sigla frá Eyjum án þess að við vorum látin vita, með búslóð foreldra minna. 

Og síðar erum við send með flugvél frá varnarliðinu til Reykjavíkur.

Pabbi fór aftur til Eyja og var við hreinsunarstörf. Hann hefur alltaf verið mikill "ljósmyndakall" og á mikið af glæsilegum myndum frá þessum tíma. 

 


mbl.is 35 ár frá gosinu í Heimaey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammar! Vulture funds.

Ég rakst á grein um fjármálageirann á heimasíðunni http://www.makepovertyhistory.org

 Þetta er nú sennilega ein dekksta hliðin á fjárfestum, ég vona það í það minnsta.

En það á svo sem ekkert að koma manni á óvart lengur! 

Vulture funds (Hrægamma-sjóðir) eru einkafyrirtæki sem kaupa upp skuldir fátækra þjóða og fara síðan í mál og innheimta síðan með fullri hörku til að hámarka gróðann!

Eitt slíkt fyrirtæki sem heitir Donegal International fór í mál við Zambíu.

Skuld sem þeir keyptu fyrir $3.3 milljónir var upphaflega $15.0 milljónir.

Donegal International fór fram á $55 milljónir frá Zambíu fyrir Dómstól í London.

Sú kröfu upphæð var tilkominn með vöxtum og kostnaði. Zambía svaraði fyrir sig í réttinum og lækkaði dómarinn upphæðina á endanum í $15.5 milljónir.

Zambía er land sem þarf á öllum sínum fjármunum að halda og þessir peningar hefðu þurft að fara í kennara, lækna og vatnsbirgðir.

Nánari upplýsingar má finna hér: http://www.jubileedebtcampaign.org.uk/?lid=2893  

 

 


Guðs útvalda þjóð.

Ísraelar eru langþreyttir á skærum frá Palestínumönnum sem er skiljanlegt.  Svo að þeir byggðu vegg að ég hélt til að vernda sjálfa sig.

En svo kom í ljós að þessi veggur er byggður a.m.k. á stórum hluta eingöngu á Palestínsku landi (Palestína er báðum megin veggsins)! Svo að bóndi er klipptur frá ræktunarlandi sínu t.d.

 Ég á kunningja sem er Ísraeli og fluttist(hraktist) til Bandaríkjanna út af ástandinu.

Hann vill ekkert ræða þetta of mikið en glöggt má heyra að hann er ekki stoltur af samlöndum sínum og ungafólkið í dag er ekki jafn ginkeypt fyrir pólitískum áróðri eins og áður.

Internetið hefur gefið fólki meiri aðgang að upplýsingum en pólitíkusar á svæðinu hefðu kosið.

Stór hluti yngri kynslóða í Ísrael kennir landnámi Ísraela um hvernig staðan er í dag og mjög þreytt á ástandinu.

Þetta unga fólk hefur áttað sig á því að Ísraelar og Palestínumenn þurfi að læra að lifa saman og það er vilji meðal almennings til þess!

Því miður er þetta að miklu leiti ennþá í höndum gamalla pólitíkusa sem viðhalda áratuga löngu ástandi. 

Þegar Jesú kenndi "fyrirgefningu" og "hinn vangann" þá voru Ísraelar fyrir löngu orðin Guðs útvalda þjóð. Svo að hans kenningar hafa aldrei verið hluti af Gyðingatrú og þeir vilja sem minnst um hann heyra.

En þessi út úr dúr er bara til að fólk átti sig á að á Vesturlöndum eru flestir Kristnir og því höfum við takamarkaðan skilning á þessari deilu sem hefur staðið í yfir 40 ár!

Ef Jesú Kristur hefði fæðst í Belgíu þá værum við sennilega ekki að skipta okkur af þessu frekar en Rúanda og Mjanmar.

 

 

 

 

 


mbl.is Rafmagnsleysi á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferskur Heimspekingur.

Ég horfi ekki oft á Silfur Egils, en í gærkvöldi rétt fyrir svefnin þá sá ég umræðu um Islam með afslætti.

Þar var Magnús Þorkell Bernharðsson ásamt  Viðari Þorsteinsyni titlaður heimsspekingur og ritstjóri Islam með afslætti.

Viðar var vægast sagt skemmtilegur og röggsamur í sínum málflutningi.

Eg tek undir það með honum að Islam í heild sinni er fordæmt og hann vill fá málefnalegri og sanngjarnari umræðu um Islam.

Það var ekki laust við að Egill Helgason væri orðinn talsvert reiður vegna þess að Viðar þessi var með sterk rök fyrir því sem hann sagði og hikaði ekki við að segja sína skoðun þvert ofan í Egil sem var ekki allveg undirbúinn undir svona ákveðinn ungann mann að því er virtist.

Þetta var stutt spjall í enda þáttarins, en ég hvet Egil (sem les þetta örugglega:) til að taka eins og einn þátt um málefni trúarbragða. Það held ég að sé öllum hollt og þá þarf þessi Viðar Þorsteinsson að vera með! Það er á hreinu!   

 http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4366861

 


Ekki versla á Íslandi.

Finnst þetta einfaldlega mjög góð grein og sönn, sem á erindi til allra.

Vona að svona copy/paste aðferð fyrirgefist!

mynd

Íris Erlingsdóttir skrifar skrifar:

Þetta segir Íris Erlingsdóttir fyrrum ritstjóri Gestgjafans í grein sem hún hefur sent Vísi. Þar talar hún um verslunaræði íslendinga í útlöndum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem eitt stærsta dagblað Minneapolis var með forsíðufrétt um málið.


Verslunarorgíur Íslendinga erlendis voru á forsíðu eins stærsta dagblaðs Bandaríkjanna, The Minneapolis Star Tribune, núna rétt fyrir jólin. Greinin fjallaði um vinsælar verslunarferðir útlendinga, en sérstaklega Íslendinga, vegna lágs gengis dollars, til Ameríku og forsíðumynd blaðsins sýndi örþreyttan Íslending þar sem hann beið úti á Humphrey flugvelli eftir fluginu heim, liggjandi ofan á jólagóssinu.

Þegar ég las þetta yfir kaffibollanum mínum þennan desembermorgun í Minnesota þar sem ég hef búið undanfarin sjö ár, hugsaði ég með mér að nú hefðum við alveg gengið af göflunum í neyslunni. Neyslugleði Íslendinga var orðin að forsíðufrétt í heimspressunni. Frá því að heyra algeng ummæli útlendinga um ættjörðina ástkæru ,,Ísland... já, ó þú ert íslensk, ég var einmitt að horfa á heimildamynd á PBS um alkóhólismann á Íslandi, víst verst í heiminum...." nú yrði það „já, Íslendingar, ég las að þeir væru heimsins versta dæmi um neysluhyggju..."

En það var ekki fyrr en ég kom heim yfir jóla-og nýárshátíðina að ég skildi hvers vegna Íslendingar halda áfram að fara til útlanda til að versla þó landið sé orðið fullt af "big-box" búðum eins og hér í Ameríku og allt sé til af öllu. Í íslenskri verslunarmenningu er það alltaf það sama sem stendur upp úr hvað neytendur varðar: óheyrileg dýrtíð og afburða léleg þjónusta.

Verðlagning, sérstaklega á fatnaði, er yfirgengileg - klúr er helst orðið sem manni dettur í hug til að lýsa okrinu. En það er ekki bara það að krómslegnar okurbúllur mannaðar spjátrungslegu afgreiðslufólki séu fullar af nankinbrókum sem kosta hálf mánaðarlaun meðallaunþega - íslenskir verslunareigendur eru líka enn fastir í því sem ég kalla KGB stílinn hvað snertir þjónustu við neytendur, eins og ég komst að af eigin raun yfir hátíðarnar heima á Íslandi.


Ég hlakkaði til að borða jólamatinn, sem var hamborgarhryggur, og í Hagkaup keypti ég tvo hryggi, einn til að elda á aðfangadagskvöld og annan til að taka með mér út. Hamborgarhryggirnir eins og maður hefur fengið þá heima í gegnum tíðina eru nefnilega ekki auðfundnir í USA; maður verður að leita uppi bændur og gamalreynda kjötvinnslumenn í smábæjum með skringilegum nöfnum til að finna reykt svínakjöt sem lítur út eins og alvöru kjöt með kjötþráðum en ekki eins og pressað frauðplast.

En þegar hryggurinn hafði verið eldaður kom í ljós að kjötvinnslan í Hagkaup virtist hafa hrifist af þessari amerísku aðferð við meðferð svínakjöts svo eftir jólin hélt ég niður í Hagkaup í Kringlunni til að skila hryggnum. Ég dró kjötið ásamt kvittun upp úr rauðum Hagkaupspokanum og sagðist vilja skila því.

Afgreiðsludaman leit á mig og hallaði undir flatt. „Veistu ég get ekki tekið við þessu, það er ekki hægt að skila mat... Það má ekki endurgreiða matvöru." Ég hafði vart upphafið ræðu mína um hvurslags eiginlega léleg þjónusta þetta væri, um Íslendinga sem búa erlendis og hrörnun íslenskrar svínakjötsvinnslu þegar hún sá aumur á mér, tók up penna og blað og byrjaði að fylla út innleggsnótu.

„Við megum nú ekki gera þetta, en ... þetta er allt í lagi, ég geri bara undanþágu fyrir þig." Ég hafði reyndar ætlað að fá peningana mína til baka því ég hugðist fara niður í Nóatún til að kaupa annan hrygg, en sagði ekkert þar sem ég átti eftir að versla nokkrar íslenskar bækur og gat notað nótuna til þess.

Laus við svínið hélt ég beinleiðis yfir í 66°N, þar sem ég hafði fjárfest í jólagjöf sem átti að fara aftur með fjölskyldunni hingað út. Gjöfin, jakkapeysa, passaði ekki svo það þurfti að skipta henni. En rétta stærðin var ekki til, hvorki þar né í öðrum verslunum 66°N. Okei.... jæja, ég ætla þá bara að fá þetta endurgreitt, sagði ég við afgreiðslustúlkuna, enda hafði ég borgað með debetkorti fyrir vöruna. Hún leit á mig eins og ég hefði sagt eitthvað dónalegt eða lagt til að hún tæmdi peningakassann ofan í töskuna mína.

„Endurgreitt?! Nei. Það er ekki hægt." Hvað meinarðu það er ekki hægt, spurði ég. „Það er ekki gert hérna. Það bara tíðkast ekki í búðum á Íslandi að maður fá endurgreitt. Þú getur fengið innleggsnótu." Bíddu nú við, hvar er ég stödd, hugsaði ég, er þetta Rassgatistan eða Podunkistan? Hér er ég með vöru sem ég staðgreiddi, ónotaða, enn með miðunum á, í gjafaumbúðunum frá versluninni sjálfri, með kvittun, það er ekkert til í búðinni sem ég get notað, en ég get ekki fengið hana endurgreidda? Ég bý erlendis, svo hvað á ég að gera við innleggsnótu, ég týni henni sennilega eða gleymi henni, ég veit ekki hvenær ég kem aftur hingað.

Þá datt mér snjallræði í hug. Það er 66°N sjoppa í flugstöðinni í Keflavík, kannski get ég notað hana þar... „Þú getur prófað það," sagði afgreiðslustúlkan, greinilega fegin að losna við þessa freku kellingu út úr búðinni.

Lítið úrval var í fríhafnarbúðinni, en ég fann eina peysu sem passaði hvað varðaði stærð og verð. Ég lagði peysuna á afgreiðsluborðið ásamt innleggsnótunni. „Nei," sagði afgreiðsludaman, eftir að hún hafði litið á innleggsnótuna merkta lógói 66°N í stórum stöfum. „Við megum ekki taka við þessu," sagði hún eins og ég hefði lagt notaðan klósettpappír á borðið.

Nú var mér alveg nóg boðið. Ég vissi að þessi markvissa „léleg þjónusta er okkar stolt" stefna verslunareigendanna var ekki vesalings konunni að kenna, en að geta ekki notað innleggsnótu 66°N í þeirra eigin verslun... Það sauð í mér pirringurinn. Klukkustundar biðin eftir að tékka inn í flugið, og margfaldar vegabréfs- og skósólaskoðanir yfirvalda í flugstöðinni höfðu heldur ekki bætt skap mitt. Ég bað um að fá að tala við verslunarstjóra, en það var enginn í búðinni „yfir." „Þú getur talað við Halldór," sagði konan. „Hann er yfir þessu öllu, hann er í Reykjavík..."

Svo ég hélt aftur til Ameríku, peysulaus og orðlaus yfir dónaskap íslenskra kaupmanna. Ég reyni að liggja á innleggsnótunni þangað til ég kem heim næst, eða e.t.v. gef ég hana einhverjum í afmælisgjöf.

Sennilega get ég fengið alveg eins jakka í Columbia Sportswear útivistarfatabúðinni hérna rétt hjá fyrir þrjú eða fjögur þúsund kall eða minna á útsölu í staðinn fyrir tíu þúsund krónurnar sem ég greiddi fyrir hann á Íslandi. Enda var það ekki jakkinn sjálfur sem var það mikilvægasta - ættjarðarástin birtist í ýmsum myndum og ein þeirra er að vera stundum í sér „íslenskum" fatnaði, íslenskri lopapeysu, nú eða flík sem á stendur 66°N og er búinn til í Sjóklæðagerðinni. Dálítið kúl. (En nú er ég reyndar ekki alveg viss um hvað er séríslenskt við 66°N fatnaðinn. Á fallegri 66°N húfu sem dóttir mín fékk í jólagjöf stendur: Made in Latvia.)

Ég hef ekki enn hringt í Halldór (eða Hagkaup) en það væri fróðlegt að vita, frá honum eða einhverjum forsvarsaðilum íslenskra verslunareigenda, hvers vegna þeim finnst í lagi að bjóða íslenskum neytendum upp á svona þjónustuleysi. En þangað til mun ég í framtíðar ferðalögum aftur heim reyna að gera eins og heimamenn á Fróni og forðast íslenskar verslanir.


Tónlist. Hið eina alþjóðlega tungumál.

 

 Í dag sá ég áhugaverðasta sjónvarpsþátt sem ég hef séð í mjög langann tíma.

Að minnsta kosti sem hefur haft áhrif á mig fram yfir næsta klukkutímann að honum loknum!

Heimildarmynd um samstarf þeirra félaga og vini Daniel Barenbroim sem er Ísraeli og Edward Said frá Palestínu.

Báðir miklir snillingar.

Þeir fengu þá hugmynd að safna saman ungu tónlistarfólki frá Mið-Austurlöndum til að spila saman og mynda Sinfóníuhljómsveit á heimsmælikvarða.  Hópurinn var vægast sagt hæfileikaríkur!

Aðalmálið var hinsvegar að þarna var samankomið ungt fólk frá Ísrael, Palestínu, Líbanon og Sýrlandi ásamt fulltrúum fleiri landa.

Það er ótrúlegt að heyra þetta unga fólk segja frá því að á milli þessara landa sé ekki einu sinni símasamband, enginn félagsleg tengsl!

Það var því mikið sem þau lærðu af hvert öðru um hin löndin.

Þarna komu þessir ólíku einstaklingar saman og eftir nokkra daga þá var orðin til mögnuð hljómsveit hafinn yfir ríkjadeilur og pólitík.

Tilgangurinn var mjög einfaldur, að ýta undir Tónlistarmenningu á þessum slóðum og brjóta múra milli fólksins á svæðinu, sérstaklega þá huglægu með þekkingu og kennslu að leiðarljósi.

Einangrun almennings í þessum löndum gerir það að verkum að Pólitíkusar og fjölmiðlar stjórna upplýsinga flæðinu að vild.

Þegar þessir einstaklingar kynntust þá kom ýmislegt í ljós, fólk eins og við hin með sömu drauma um frið og samvinnu.

Myndin heitir: Knowledge is the Beginning

Þessi mynd sýnir glöggt hvað Tónlist er alþjóðleg. Túlkun á tilfinningum er skiljanleg fyrir alla og ekki bundinn við tungumál.

 http://www.barenboim-said.org/

 

 


Ekkert uppgjör á árinu!

Ég hef tekið þá ákvörðun að gera ekki samantekt á árinu hjá mér.

Þetta var ágætt ár þrátt fyrir allt og ætla að skilja þannig við það.

Hinsvegar ætla ég að nota tímann í að skipuleggja árið 2008 eins og kostur er.

Það er samt skemmtilegt að sjá sum af þessum uppgjörum hjá fjölmiðlum. Tónlistar og Íþrótta uppgjör en Frétta uppgjörin, óveður og pólitík er ekki eins spennandi fyrir mig. Frekar niðurdrepandi fyrir móralinn.

 

Ég verð að minnast á Íþróttamann ársins, Margrét Lára Viðarsdóttir.

Hún er frábær íþróttamanneskja og góð fyrirmynd að öllu leiti.

Hún var valin af Íþróttafréttamönnum með  Þorstein Gunnarsson í fararbroddi.

En hann var víst ekki par hrifinn af því að Hólmfríður Magnúsdóttir var valinn Knattspyrnukona ársins hjá félögum sínum úr Landsbankadeildinni.

Enda var Hólmfríður Magnúsdóttir hvergi sjáanleg á lista hinna alvitru Íþróttafréttamanna.

Ég þekki hvoruga stúlkuna en finnst þær báðar frábærar Knattspyrnukonur og eiga örugglega sína titla báðar skilið.

Það er hinsvegar þannig að þeir sem skora mörkin fá heiðurinn, en ekki þeir sem skapa færin og gefa stoðsendingar, það veit enginn betur en Íþróttafréttamaðurinn!

 

 

 

 


« Fyrri síða

Fjarkaland

Fjarki
Fjarki
Áhugamaður um Atvinnumennsku

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Porterhouse

Finnur Bjarki. flytjandi Eyþór Ingi - Wake Up Now

Nýjustu myndir

  • ...banner4
  • ...banner7
  • ...eportbanner

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband